Norræn stjórnmál

Norðurlandaráð æskunnar er stjórnmálavettvangur ungs fólks á Norðurlöndum og mikilvægur hluti norræns samstarfs. Við erum rödd ungs fólks í ákvarðanaferlum og setjum mikilvæg málefni á dagskrá sem varða ungt fólk á Norðurlöndum. Dagskrá okkar verður til í lýðræðislegu ferli með aðkomu ungliðahreyfinga allra stjórnmálaflokka á Norðurlöndum. Við störfum þvert á flokka til að láta rödd ungs fólks heyrast við ákvarðanatöku.

Við höfum unnið árum saman að því að efla norrænt samstarf um umhverfis- og loftslagsmál. Við höfum samþykkt fjölda ályktana þar sem við leggjum áherslu á jafnrétti kynjanna og bendum á mikilvægi þess að norrænar sjónvarpsstöðvar í almannaþjónustu verði í boði á öllum Norðurlöndum. Þá beitum við okkur fyrir greiðari aðgangi ungs fólks að menntun og vinnu á Norðurlöndum, endurbótum á menntunar- og vinnumiðlunaráætlunum eins og Nordjobb og Nordplus og samnorrænu stúdentaskírteini sem veitir námsmannaafslátt á öllum Norðurlöndum. Við höfum samþykkt ályktanir til stuðnings réttindum hinsegin fólks og gagnrýnt Færeyinga fyrir að verja ekki réttindi þeirra. Við samþykktum ályktun 2006 um að hefja aftur sjálfbærar hvalveiðar í atvinnuskyni. Við höfum ítrekað bent á þann vanda að ungt fólk á Norðurlöndum á æ erfiðara með að skilja hvert annað. Þess vegna viljum við efla kennslu í norrænum tungumálum alls staðar á Norðurlöndum.

Ákvarðanataka í norrænu samstarfi

Norðurlandaráð æskunnar er fastur hluti Norðurlandaráðs. Norðurlandaráð er samstarfsstofnun þjóðþinganna í Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð og einnig Álandseyja, Færeyja og Grænlands. Allt frá stofnun Norðurlandaráðs 1952 hefur það átt frumkvæði og sinnt ráðgjöf og eftirliti með málum sem varða opinbert norrænt samstarf. Norðurlandaráð er skipað 87 kjörnum fulltrúum. Þingmenn ráðsins sitja á þjóðþingum landanna og eru valdir þar að tillögu þingflokkanna. Ekki er kosið beint í Norðurlandaráð.

Við beinum tillögum okkar áfram til Norðurlandaráðs. Fulltrúar í forsætisnefnd Norðurlandaráðs æskunnar taka þátt í fundum hjá aðildarsamtökum ráðsins og nefndarfundum Norðurlandaráðs auk þess sem forseti ráðsins okkar ávarpar árlegt þing Norðurlandaráðs. Sjónarmið okkar hljóta hljómgrunn í Norðurlandaráði og geta vakið umræður meðal ungs fólks á Norðurlöndum. Þannig höfum við áhrif á ályktanir Norðurlandaráðs og um leið norræn stjórnmál.

Forsætisnefndin stýrir starfi Norðurlandaráðs sem kemur saman tvisvar á ári, á þemaþingi og reglulegu þingi að hausti. Þar taka norrænir þingmenn ákvarðanir um mál sem þeir vilja að norræn stjórnvöld finni lausn á. Á reglulegu þingi eru kjörnir forseti, varaforseti og þingmenn í forsætisnefnd á næsta ári. Formennskan færist milli landa.

Norðurlandaráð er skipað norrænum þingmönnum frá öllum löndunum en Norræna ráðherranefndin er samstarfsvettvangur ríkisstjórnanna. Löndin gegna formennsku í ráðherranefndinni eitt almanaksár í senn og skiptast á samkvæmt ákveðnu fyrirkomulagi þannig að sama landið gegnir aldrei samtímis formennsku í Norrænu ráðherranefndinni og Norðurlandaráði.

Pólitísk afgreiðsla mála

Þingið

Þingið er æðsta stofnun ráðsins og er haldið árlega helgina á undan þingi Norðurlandaráðs og í sömu borg. Á þingi ráðsins okkar eru starfsáætlun og fjárhagsáætlun næsta árs samþykktar. Þingið kýs nýja forsætisnefnd og nýjan forseta Norðurlandaráðs æskunnar. Ályktunum sem þingið okkar samþykkir er beint áfram á þing Norðurlandaráðs.